Upplýsingar um hótel í ferðum Johannatravel.

Upplýsingar um gististaðina
Hótelin sem við notum í ferðunum til Sýrlands og Jórdaníu eru þriggja og fjögurra stjörnu.Einnig gistum við eina nótt í Eyðimerkurtjaldbúðum í austureyðimörkinni. Fínn staður.
Á öllum stöðum eru góð og stór herbergi, langoftast er loftkæling, sjónvarp, ísskápur eða minibar og annað sem tilheyrir. Morgunverður er vel útilátinn, hlaðborð sums staðar, annars staðar er arabískur morgunmatur í boði og finnst mörgum gaman að prófa hann.
Í Sýrlandsferðum er kvöldverður oftast á því hóteli sem við gistum á og er innifalinn í verðinu. Sama máli gildir um Jórdaníu.

Jemen/Jórdanía
Í Jemen og Jórdaníuferðunum skal þetta tekið fram um hótel. Þegar til Jórdaníu er komið erum við á 4-5 stjörnu hótelum og þar er raunar flest í boði sem við eigum að venjast.
Í Jemen erum við á þokkalegum og sumum raunar afbragðs góðum gististöðum með þessum venjulegu þægindum svo sem loftkælingu, ísskápi og sjónvarpi en hótel í Jemen eru frábrugðin því sem við eigum að venjast. Þau eru oftast hrein og snyrtileg en sjaldnast íburðarmikil enda væri ansi mikil della að fara til Jemen til að vera á fimm stjörnu hótelum.
Mjög skynsamlegt að hafa sápu í pússi sínu og ekki verra að muna eftir salernispappír.
Svo er upp og ofan hvort við förum út eða borðum á hótelunum í þeim ferðum en óhætt að lofa ljúfum mat og vænu viðmóti á öllum þessum stöðum.

Egyptaland
Hvað snertir Egyptalandsgististaði eru þeir fjögurra og fimm stjörnu og allt gott um það að segja.
Hótelin í Íran
Þar sem nýir áfangastaðir hafa bæst inn á er vert að taka fram að í Íranferð erum við einnig á sérdeilis góðum og sjarmerandi hótelum. Þau eru flest 4 eða 5 stjörnu og óhætt að staðhæfa að þau eru öll mjög skemmtileg.
Þau mæltust sérdeilis vel fyrir í fyrstu ferðinni okkar í mars 2006

Hótelin í Óman
Í ferðinni til Óman eru hótelin einnig til fyrirmyndar eins og annars staðar. Óman er þannig land að þar eru öll hótel góð/flott.
Við erum þar á tveimur lúxushótelum, í Salalah og Khasab.
Eina nótt er gist í tjaldbúðum úti á Wahibasöndum. Þar eru og ágætis klósett og sturta.

Kákasuslöndin
Í þessari fyrstu ferð okkar í maí s.l. var ánægja held ég með flesta gististaði. Í Azerbajdan var byrjað á glæsilegu hóteli í Baku sem var gott fyrir þreyttlingana. Gist í Sjeký í vagnlestastöð, sem öllum þótti mjög sérstakt. Dálítið kalt þó. Í Georgíu vorum við á prýðis góðum gististöðum, hvort sem var í heimagistingu eða á hótelum. Sama á við um Armeníu þar voru hótel rétt til sóma og ekki heyrðust neinar kvartanir nema síður væri.

Hótel og gististaðir í Líbýu
Þar verðum við á mjög góðu hóteli við hafið í Tripoli, góðu litlu gistihúsi í Ghadames og síðan í tjaldbúðum inni í Sahara. Þær á ég eftir að skoða og mun gera það þegar sljákkar í sumarhitunum. Allt hreinlegt það sem ég hef séð.